Árið 2024

Árið 2024 var viðburðarríkt ár hjá KVH. Kaupfélagsstjóraskipti urðu í byrjun febrúar þegar Björn Líndal lét af störfum og Þórunn Ýr Elíasdóttir tók við. Í byrjun sumars sagði verslunarstjóri til fjölda margra ára Jenný Duch starfi sínu lausu og kvaddi í lok sumarsins.

Frystirinn undir Sjávarborg var svo endanlega tæmdur og slökkt var á kerfunum sem sinnt hafa sínu hlutverki í rúmlega 100 ár og þjónað fjölda mörgum. Með því lauk sögu frystihólfaleigu KVH.

Í kjölfar þess að kælar KVH sem starfað höfðu hér nánast frá upphafi biluðu var lagt í að kaupa nýja kæliskápa sem nú eru komnir í gagnið en eftir á að klára uppsetningu þeirra að innan og finna út hvernig raðast best í þá o.s.frv.

Farið var á fullt í að koma KVH inn í framtíðina og er búið að fjárfesta í rafrænu hillumiðakerfi sem byrjað er að innleiða og mun sú innleiðing halda áfram næstu daga og mánuði og að ending verður bæði kjörbúð og byggingavörudeild komin með rafræna hillumiða á flest allar sínar vörur. Í þessu felst mikill tímasparnaður, sparnaður á útprentun svo ekki sé minnst á fagurfræðilegt sjónarmið.

Sendibíll KVH (snattarinn) var kominn vel til ára sinna og var viðhalds og viðgerðarkostnaður farinn að verða mikill svo fundinn var nýrri snattari sem er nú farinn að rúnta um götur bæjarins og bíður eftir fallegum KVH merkingum. Einnig var lyftari pakkhússins endurnýjaður enda var hina sömu sögu að segja af þeim gamla og af gamla snattaranum. Það gladdi okkur mjög að geta selt bæði gamla bílinn sem og gamla lyftarann. Allar krónur uppí kostnað eru ávallt vel þegnar.

Ný hjólastólalyfta var tekinn í notkun við Sjávarborg.

Unnið var að nýjum gluggum á Austurhlið hússins og er fyrsti glugginn af sex kominn upp og er ætlunin að því verki verði að fullu lokið í lok sumarsins. Efnt var til hugmyndakynninga innan samfélagsins og gaman var að sjá hversu góð þátttaka var í því verkefni og greinilegt var að hugur fólks um hvað það vill sjá í þessum gluggum var nánast öll á sömu línu og reynum við eftir fremsta megni að bregðast við því.

Hér er stiklað á stóru á því sem gerst hefur í KVH á árinu sem senn er að líða og tökum við fagnandi við nýju ári með öllum þeim áskorunum sem því mun fylgja.

Starfsfólk KVH óskar félagsmönnum öllum, viðskiptavinum sínum og samstarfsaðilum Gleðilegs nýs árs með kærri þökk fyrir árið sem er að líða. Án ykkar væri þetta ekki hægt.

F.H. Kaupfélags Vestur Húnvetninga

Þórunn Ýr Elíasdóttir

Kaupfélagsstjóri.