Frábærar undirtektir vegna gluggamála

KVH þakkar fyrir frábærar undirtektir og hugmyndir vegna glugga á austurhlið hússins.

Það kom svo sannarlega í ljós að fólk hefur skoðun á Kaupfélagshúsinu og útliti þess. Það virtist vera samhljómur þeirra sem tóku þátt í hugmyndatillögum að hafa EKKI auglýsingar í þessum gluggum. Flestir hölluðust að náttúrumyndum, sögu staðarins og Kaupfélagsins. Ákveðið var að fara þessa leið, blanda saman sögu, menningu og listum, sem gerði okkur kleift að sækja um styrk til SSNV þar sem þetta mun tengjast menningu og sögu staðarins. Vonandi fæst sá styrkur samþykktur og gluggarnir verði okkur öllum til ánægju, fróðleiks og prýði fyrir húsið sjálft.

Vinna við nýjar gluggamerkingar er þegar komin af stað og standa vonir til að fyrsti "nýi glugginn" nái að líta dagsins ljós fyrir jólin. Ef það næst ekki, þá strax á nýju ári. Nýir gluggar munu svo bætast við jafnt og þétt og vonandi verður komið nýtt útlit í alla glugga þegar sumarið gengur í garð. 

Við þökkum góðar tillögur og enn betri undirtektir.