Fréttir af aðalfundi KVH

Fréttir af aðalfundi KVH

Aðalfundur Kaupfélags Vestur – Húnvetninga svf. var haldinn í Félagsheimilinu á Hvammstanga miðvikudaginn 20. apríl síðastliðinn. Velta félagsins á árinu 2021 var um 990 milljónir króna og rekstrarhagnaður eftir skatta var 40,5 milljónir króna. Heildareignir félagsins var um áramót 827,3 milljónir króna og eigið fé félagsins var um 608,3 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall er 73,5 %. Ársreikning félagsins má nálgast á heimasíðu félagsins, kvh.is

Á fundnum voru kjörnir tveir nýjir stjórnarmenn, þau Guðný Helga Björnsdóttir og Ólafur Benediktsson, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem kona er kjörin í stjórn þessa 113 ára gamla félags. Fyrir í stjórn voru Gunnar Þórarinsson formaður, Ársæll Daníelsson og Þorsteinn H Sigurjónsson. Varamenn í stjórn voru kjörin þau Elín Anna Skúladóttir, Þórarinn Óli Rafnsson og Örn Óli Andrésson.

Á aðalfundinum var samþykkt stefna og viðbragðsáætlun Kaupféagsins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Stefnan hefur verið birt á heimasíðu félagsins, kvh.is

Kaupfélag Vestur-Húnvetninga svf. (KVH) er meðal elstu fyrirtækja á Íslandi, stofnað þann 20. mars 1909 á Hvammstanga. Félagssvæði þess er Húnaþing vestra. Félagið hét upphaflega Verzlunarfélag Vestur-Húnavatnssýslu en nafni þess var breytt í Kaupfélag Vestur-Húnavatnssýslu við sameiningu Verzlunarfélagsins og Sláturfélags Vestur-Húnavatnssýslu. Tilgangur félagsins er að; annast á sem hagfelldastan hátt viðskipti og þjónustu fyrir félagsmenn, efla atvinnulíf í héraðinu, viðhalda og útbreiða þekkingu samvinnuhugsjónarinnar við að leysa félagsleg viðfangsefni og að styrkja framtíð félagsins með því að treysta fjárhag þess.

KVH rekur kjörbúð, byggingarvöruverslun og búvöruverlsun. Auk þess hýsir KVH verslun Vínbúðarinnar og hefur með höndum afgreiðslu fyrir Vörumiðlun ehf. KVH á einnig og rekur fasteignir sem hýsa m.a. starfsemi Selaseturs Íslands, Fæðingarorlofssjóðs og veitingastaðarins Sjávarborgar. KVH á einnig hlut í nokkrum fyrirtækjum m.a. 50% hlut í Sláturhúsi KVH ehf. (SKVH). Hjá félaginu störfuðu á árinu 2021 35 starfsmenn í 21 stöðugildi og var hlutfall kynja 60% konur og 40% karlar.

 

Kaupfélagsstjóri er Björn Líndal Traustason.